Hvað er Unicode?
Unicode staðallinn úthlutar hverju skriftákni
tölu,
sem er óháð tölvugerð,
sem er óháð forriti,
sem er óháð tungumáli.
Tölvur geta í eðli sínu aðeins unnið með tölur. Þær geyma
bókstafi og önnur skriftákn með því að úthluta þeim tölu. Áður en
Unicode kom til voru hundruð mismunandi túlkunarkerfa sem úthlutuðu
þessum tölum. Ekkert eitt túlkunarkerfi gat innihaldið nægilegan
fjölda skriftákna; t.d. þarfnast Evrópusambandið nokkurra mismunandi
kerfa til að spanna öll tungumál þess. Jafnvel fyrir eitt tungumál,
eins og ensku, var eitt túlkunarkerfi ekki nóg fyrir alla bókstafi,
greinarmerki og algengustu einingatákn.
Túlkunarkerfin hafa einnig verið í andstöðu hvert við annað, þ.e.
tvö kerfi geta notað sömu tölu fyrir tvö ólík skriftákn eða notað
tvær mismunandi tölur fyrir sama táknið. Sérhver tölva
þarf(sérstaklega miðlarar) að styðja margs konar túlkanir á stöfum;
engu að síður er alltaf hætta á stafabrenglun þegar gögn fara á
milli tölva og á milli mismunandi túlkunarkerfa.
Unicode breytir þessu öllu!
Unicode gefur hverju skriftákni eigin tölu sem breytist ekki
eftir tölvugerð, forriti eða tungumáli. Unicode staðallinn hefur
verið tekinn upp af forkólfum tölvuiðnaðarins; Apple, HP, IBM,
JustSystem, Microsoft, Oracle, SAP, Sun, Sybase, Unisys og
mörgum
öðrum. Unicode er notað af nútímastöðlum eins og XML, Java,
ECMAScript (JavaScript), LDAP, CORBA 3.0, WML, o.s.frv. og er hin
opinbera leið til að útfæra ISO/IEC 10646. Unicode staðallinn er
studdur af mörgum stýrikerfum, öllum nútímavöfrum og
mörgum
öðrum búnaði. Tilkoma Unicode staðalsins og búnaðar til að
styðja hann eru veigamikil skref í þróun hnattrænnar tækni.
Að nota Unicode í notendamiðlurum eða í forritum og vefsíðum með
mörgum notendaviðmótum býður upp á umtalsverðan sparnað, í
samanburði við að nota eldri stafatöflur. Unicode leyfir einum
forritapakka eða einni vefslóð að ná til margra tölvugerða,
tungumála og landa án endurhönnunar. Unicode gerir gögnum kleift að
ferðast gegnum mörg mismunandi kerfi án brenglunar.
Um Unicode samtökin (Consortium)
Unicode
Consortium samtökin stefna ekki að hagnaði. Þau voru stofnuð til
að þróa, útvíkka og koma á framfæri Unicode staðlinum, sem
skilgreinir framsetningu á texta í nútímaforritapökkum og stöðlum.
Meðlimir samtakanna eru fulltrúar margs konar fyrirtækja og stofnana
í tölvu- og upplýsingaiðnaðinum. Samtökin hafa eingöngu tekjur af
aðildargjöldum sínum. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar hvar sem
er í heiminum sem óska þess að aðstoða við útvíkkun og útfærslu
staðalsins geta sótt um
aðild að
Unicode samtökunum.
Ítarlegri upplýsingar (á ensku) er að finna undir:
Glossary,
Technical
Introduction og
Useful
Resources.
Icelandic translation by Þorgeir Sigurðsson